Horft yfir hraungjá - Búfellsgjá. Ljósmynd: C.C.Chapman.

Umsögn: Deiliskipulag í Urriðavatnsdölum Garðabæ

Stjórn Landverndar styður friðlýsingu Urriðakotshrauns, gerð upplýsingaskilta og bætt aðgengi almennings að svæðinu en er alfarið á móti því að samfara friðlýsingunni verði unnin spjöll á hrauninu
Útivistarsvæði í Urriðavatnsdölum – umsögn um deiliskipulag send Skipulagsfulltrúa Garðabæjar þann 9. nóvember 2020.  Stjórn Landverndar hefur kynnt sér ofangreinda tillögu og telur hana varhugaverða. Heiðmörk, Vífilstaðahlíð og aðliggjandi óbyggð svæði eru mikið nýtt af almenningi til þess að njóta útivistar í náttúrunni alveg við bæjarmörkin. Landvernd óttast að með þessari deiliskipulagstillögu verði möguleikar almennings til þess verulega skertir auk þess sem mikil hætta er á mjög alvarlegum spjöllum á einstökum hraunmyndunum.

Urriðakotshraun nýtur þegar verndar

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann úr gígnum Búrfelli fyrir um 8000 árum. Hraunið þekur hluta af Hafnarfirði og Garðabæ. Hraunið hefur mikið verndargildi og fram kemur í skipulags- og matslýsing fyrir nýtt deiliskipulag Garðabæjar að það hefur verið stefna bæjarstjórnar Garðabæjar frá árinu 2006 að friðlýsa skuli Búrfellshraun frá gíg til strandar innan bæjarmarka Garðabæjar. Það hefði verið óskandi að þeirri stefnu hefði verið fylgt eftir, en því miður hefur hluta hraunsins verið raskað vegna umdeildra framkvæmda t.d. lagning Álftanesvegar árið 2014. Urriðakotshraun er í dag hverfisverndað og það nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 61 gr. náttúruverndarlaga. Þar stendur „Forðast ber að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til“. Samhliða deiliskipulagsvinnu stendur til að friðlýsa Urriðakotshraun sem fólkvang. Skv. 52 gr. í lögum um náttúruvernd, 60/2015, stendur eftirfarandi um fólkvanga:
52. gr. Fólkvangar. Að frumkvæði hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitarfélaga og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar er heimilt að friðlýsa landsvæði til útivistar og almenningsnota sem fólkvang. Skal verndun svæðisins miða að því að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu.
Markmið með friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvangs eins og fram kemur í auglýsingu er m.a. vernd jarðminja.

Golfvöllur og verndun

Í skýrslu Alta um deiliskipulagsbreytingarnar er fjallað um hugmyndir um stækkun golfvallar inn á Urriðakotshraun. Við jaðar Urriðakotshrauns er Urriðvöllur, 18 holu golfvöllur í eigu Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa. Til stendur að stækka golfvöllinn um 9 holur til að auka sveigjanleika og hagkvæmni í rekstri. Samhliða á að tryggja að Urriðavöllur verði á heimsmælikvarða hvað varðar gæði brauta og upplifun iðkenda. Fyrirhuguð stækkun er innan fólkvangsins, þ.s. afmarkað er svo kallað þróunarsvæði á hraunflötum sem nefnist Flatahrauni. Heildarflatarmál þróunarsvæðisins er 16,5 ha og er áformað 46% af því landsvæði verði fimm nýjar golfbrautir. Útivistarstígur mun liggja meðfram brautunum og gert er ráð fyrir fjórum þverunum milli núverandi Urriðavallar og nýju golfbrautanna innan Urriðakotshrauns, til að tengja saman nýjar og eldri golfbrautir og útivistarstíga. Þar af yrðu tvær þveranir nýjar.1 Fólkvangur ber samkvæmt náttúruverndarlögum að miða að því að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu. Landvernd er ekki að fullu ljóst hvernig almennur aðgangur fólks fer saman með golfvelli þar sem félagsmenn greiða sér aðgang að svæðinu. Þróunarsvæðið innan Urriðakotshrauns er slétt helluhraunsmyndun sem í dag er hulin þunnum jarðvegi og gróðri. Fyrirhuguð lagning golfbrauta miða að því að leggja jarðveg þar ofaná ásamt rafmagnslögnum og vatnsúðunarkerfi neðanjarðar. Gróður sem fyrir er verður fjarlægður að mestu leiti. Hraunið verður algjörlega hulið undir golfbrautunum. Þá verða miklar framkvæmdir í hrauninu , s.s. uppgröftur og efnisfluttningar. Koma þarf vinnuvélum og efni inn á svæðið sem mun raska hrauninu. Einnig er hætta á að stígar eða þveranir frá núverandi Urriðavelli að nýju golfbrautunum munu valda raski þar sem hraunkanturinn er bæði úfinn og hár. Ekki er gerð grein fyrir þessu í skipulags- og matslýsingu. Mikið er vitnað í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands, ábendinga sem þar komu fram og sem tekið var tillit til. Allt gott er um það að segja en hins vegar eru í skýrslunni líka aðvörunarorð um rask og ógnir t.d.
„Helstu ógnir sem rýrt geta verndargildi hraunsins eru vegagerð, þéttbýli, ágengar tegundir og skógrækt, reiðleiðir, útivistarstígar og golfbrautir. Samkvæmt skipulagi er þó ekki gert ráð fyrir þéttbýli eða frekari vegagerð á athugunarsvæðinu“.
Í skýrslunni kemur einnig fram að með nýrri byggð í Urriðaholti muni umferð fólks aukast um svæðið2. Stjórn Landverndar sér ekki hvernig það fer saman að vernda Urriðakotshraunhraunið og leggja golfbrautir á því. Hraunið er þegar friðað og friðun sem fólkvangur ætti að hvetja til þess að náttúruspjöll verði ekki unnin á hrauninu og að möguleikar almennings til þess að njóta náttúrunnar á svæðinu verði ekki skertir. Með golfvelli í hrauninu sem aðeins er aðgengilegur meðlimum golfklúbbsins sem greiða aðgangeyri verður náttúruminjum spillt og aðgangur til útivistar takmarkaður við lítinn hóp. Þetta er ekki í anda friðlýsinga og stangast á við markmið friðlýsingar hraunsins um vernd jarðminja eins og fram kemur í auglýsingu.

Brýn nauðsyn?

Urriðakotshraun nýtur sérstakrar verndar náttúruverndalaga og því á ekki að raska nema brýna nauðsyn beri til. Stækkun golfvallar, hagkvæmur rekstur hans eða uppfærsla upp í „heimsmælikvarða“ er ekki brýn nauðsyn. Landvernd leggur mikla áherslu á að hrauninu verði ekki raskað enda er enginn ástæða til þess. Með því að taka svæðið undir golfvöll er verið að útiloka almenning frá því að njóta þar útivistar. Því eru forsendur sem lýst er í kynningu misvísandi: ekki er verið að efla útivist á svæðinu heldur verður hún takmörkuð. Landvernd bendir einnig á það sem fram kemur í skýrslu NÍ2 og vísað er til í skipulags- og matslýsingu með deiliskipulaginu um að fjölgun reið- og göngustíga megi ekki skera hraunið eða valda spjöllum á því. Áherslu verður að leggja á að leggja stíga þannig að þeir falli að landslagi og skerði ekki landslagsheildir. Þá er mikilvægt að hefta útbreiðslu alaskalúpínu á svæðinu og eyða henni þar sem hún er útbreidd. Þetta ætti að ræða í friðlýsingarskilmálum og skipulags- og matslýsingu deiliskipulagsins. Lokaorð Stjórn Landverndar styður friðlýsingu Urriðakotshrauns, gerð upplýsingaskilta og bætt aðgengi almennings að svæðinu en er alfarið á móti því að samfara friðlýsingunni verði unnin spjöll á hrauninu. Stjórnin er sérstaklega mótfallin því að golfvöllur breiði úr sér inn í og yfir hraunið og eyðileggi það. Þrátt fyrir góð áform og markmið sem snúa að gerð golfvallar á heimsmælikvarða og hagkvæmari rekstri golffélagsins, þá telur Landvernd að með lagningu nýrra golfbrauta innan Urriðahrauns sé verið að ganga á merkar hraunmyndanir, breyta landslagi og takmarka tækifæri almennings að nýta svæðið til útivistar, náttúrskoðunar og fræðslu eins og friðlýsing fólkvanga kveður á um.

f.h. stjórnar Landverndar

Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri

1 Alta 2020: Skipulag útivistarsvæðis í Urriðavatnsdölum. Greinargerð Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa um forsendur landnýtingar. Unnið af ráðgjafarfyrirtækinu Alta f.h. landnýtingarnefndar Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa. 21.2.2020. 2Kristján Jónasson og Ásrún Elmarsdóttir (2016) Urriðavatnsdalir. Gildi náttúruminja. NÍ-16005. Náttúrufræðistofnun Íslands. Unnið fyrir Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowa. Desember 2016     Ljósmynd: C.C. Chapman undir leyfinu CC-BY-NC-ND

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Stuðningur við friðlýst svæði í Vatnsfirði

Mikill skaði myndi hljótast af virkjun á friðlýstu svæði í Vatnsfirði. Gott væri ef Orkubú Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins léti af ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.